Hráefni

Uppskrift fyrir tvo

Fiskur

400 g roðflettur lax  
60 g salt
40 g sykur
1 sítróna (börkur)
6 g dill


Fylling

7 g dill smátt skorið 
7 g graslaukur smátt skorinn
5 g steinselja smátt skorin
5 g sítrónubörkur
7 g chilli smátt skorið
7 g engifer smátt skorið
2 msk. ólífuolía

Byggsalat

135 g jógúrt
90 g soðið bygg
12 g graslaukur smátt skorinn
10 g steinselja smátt skorin 
5 g kóríander smátt skorið
1 sítróna (börkur)
Salt

Annað

Plastfilma
Girni eða spotti

Aðferð

Fiskur

Blandið salti, sykri, dilli og sítrónuberki í skál.

Snyrtið fiskinn til en geymið afskurðinn þar til síðar.

Skerið stóra fiskflakið frá miðju til enda en passið að skera ekki í gegnum það.

Stráið kryddblöndunni á disk og leggið fiskflakið ofan á. Stráið yfir fiskinn, setjið inn í kæli og grafið laxinn í 40 mínútur.

Afskurðurinn er skorinn í litla teninga og settur í skál.


Aðferð — Fylling og eldun

Blandið saman dilli, engiferi, chilli, sítrónuberki, steinselju og graslauk.

Setjið ólífuolíu og helminginn af kryddblöndunni saman við laxabitana (afskurðinn) og saltið eftir smekk.

Skolið laxaflakið með köldu vatni og þerrið með eldhúspappír. 

Leggið plastfilmu á borð og setjið fiskflakið ofan á plastfilmuna.

Setjið laxafyllinguna í miðjuna á flakinu og stráið svo restinni af kryddblöndunni yfir fiskinn. 

Rúllið fiskinum upp í plastfilmuna og snúið upp á filmuna þar til að hún er alveg strekkt við fiskinn. Notið girni eða spotta til að snúa upp á endana.

Eldið með sous vide aðferð eða í gufuofni á 52°C í 20 mínútur.


Byggsalat

Blandið hráefnum saman og saltið eftir smekk.